Fimmta folaldið sem fæddist okkur undan Ösku stóð loks undir því að vera litföróttur hestur. Seinnipart júnímánaðar 2007 kom Haddur í heiminn, brúnlitföróttur. Strax í fæðingarfeldinum mátti greina fjölda hvítra hára, enda hefur Haddur sérlega þéttan og mikinn undirhárafeld. En það má telja góðan kost á litföróttu hrossi, því þá verða litaskilin milli hinna ólíku feldtímabila skörp og greinileg. Fyrir þær sakir hlaut folinn nafnið Haddur, en það er forn kenning fyrir hár, auk þess að vera karlmannsnafn. Hann hefur bætt um betur og staðið undir nafngiftinni á fleiri vegu þar sem hann er orðinn vel prúður á fax og tagl.
Við eins og hálfs mánaðar aldur fékk Haddur fyrsta smjörþefinn af samvinnu við manninn, þar sem hann lærði skjótt að láta mýla sig og að hlýða taumtaki. Sú æfing var endurtekin við sex mánaða aldur, og virtist minningin hafa staðist tímans tönn án þess að rýrna. Skömmu síðar fór Haddur í stutt ferðalag frá Bár niður á Eyrarbakka, þar sem hann hefur verið síðan, í vist og uppeldi hjá Skúla Steinssyni, sem er meðeigandi að Haddi.
Haddur hefur hingað til verið nokkuð hlédrægari en systkyni hans, eða ámóta mannblendinn og meðaltryppi, en verið gefinn fyrir strokur og klór þegar svo hefur staðið á. Hágengi og hýruspor sýnir hann undir sjálfum sér, lyftir í vinkil og grípur tölt og brokk nokkuð jöfnum höndum að því er virðist, en skeiði býr hann ekki yfir svo um sé talandi. Hann hefur verið nokkuð taminn, og sýnt af sér ágæta lund.
Hryssum hefur Haddur þjónað frá þriggja vetra aldri, fyrst í Sölvholti í Flóa, þá að Lágafelli í Austur-Landeyjum, og svo að Ártúnum í Vestur-Landeyjum, tvö sumur í röð. Hann hefur hingað til verið gjöfull á litförótta litinn, og í Sölvholti eignaðist hann margar dætur sem voru settar á. Ýmist til áframhaldandi ræktunar eða útflutnings.
Við eins og hálfs mánaðar aldur fékk Haddur fyrsta smjörþefinn af samvinnu við manninn, þar sem hann lærði skjótt að láta mýla sig og að hlýða taumtaki. Sú æfing var endurtekin við sex mánaða aldur, og virtist minningin hafa staðist tímans tönn án þess að rýrna. Skömmu síðar fór Haddur í stutt ferðalag frá Bár niður á Eyrarbakka, þar sem hann hefur verið síðan, í vist og uppeldi hjá Skúla Steinssyni, sem er meðeigandi að Haddi.
Haddur hefur hingað til verið nokkuð hlédrægari en systkyni hans, eða ámóta mannblendinn og meðaltryppi, en verið gefinn fyrir strokur og klór þegar svo hefur staðið á. Hágengi og hýruspor sýnir hann undir sjálfum sér, lyftir í vinkil og grípur tölt og brokk nokkuð jöfnum höndum að því er virðist, en skeiði býr hann ekki yfir svo um sé talandi. Hann hefur verið nokkuð taminn, og sýnt af sér ágæta lund.
Hryssum hefur Haddur þjónað frá þriggja vetra aldri, fyrst í Sölvholti í Flóa, þá að Lágafelli í Austur-Landeyjum, og svo að Ártúnum í Vestur-Landeyjum, tvö sumur í röð. Hann hefur hingað til verið gjöfull á litförótta litinn, og í Sölvholti eignaðist hann margar dætur sem voru settar á. Ýmist til áframhaldandi ræktunar eða útflutnings.
Júní 2013